Undirritað hefur verið samkomulag milli Auðhumlu svf., móðurfélags Mjólkursamsölunnar, og Sólar ehf. um kaup þess síðarnefnda á Emmessís hf. Samkomulagið er undirritað með fyrirvara um áreiðanleikakönnun að því er segir í tilkynningu.

Emmessís er eitt þekktasta vörumerki landsins. Mjólkursamsalan hóf framleiðslu á ísblöndu fyrir ísvélar árið 1954. Sex árum síðar var stofnað sérstakt fyrirtæki um ísframleiðsluna. Framleiðsluvörur Emmessís eru nú nálægt 120 talsins.

Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sólar, fagnar kaupunum á einu þekktasta vörumerki landsins. ?Vörurnar eru framleiddar úr hreinum, íslenskum landbúnaðarafurðum sem eiga góða samleið með þeirri vöru sem Sól framleiðir í dag,? segir Snorri. Hann segir að rekstur ísgerðarinnar verði áfram á Bitruhálsi 1 en stefnt er að sameiningu félaganna í lok ársins.

Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Auðhumlu, segir söluna á Emmessís eðlilegt framhald af þeim breytingum sem átt hafa sér stað hjá Auðhumlu og dótturfélögum þess. ?Við höfum mikla trú á þessum nýja eigendahópi og teljum að hann muni koma með ferska vinda inn í þá rótgrónu og farsælu starfsemi sem Emmessís hefur staðið fyrir í hartnær hálfa öld. Þá er okkur einnig umhugað um að eiga áfram gott samstarf við Emmessís um sölu þess mjólkurhráefnis sem félagið notar.?

Fyrirtækjaráðgjöf SPRON sá um sölu félagsins og Arev aðstoðaði kaupanda. Kaupverðið er trúnaðarmál.