Afar rólegt var á íslenskum hlutabréfamarkaði í dag. Viðskipti með ellefu félög af nítján á aðallista kauphallarinnar voru ýmist engin eða undir milljón króna. Alls nam veltan með hlutabréf í dag 319 milljónum króna í 49 viðskiptum.

Áberandi mest var velta með bréf í Marel eða 195,5 milljónir króna í 18 viðskiptum en gengi bréfa félagsins stóð í stað. Næst mest velta var með bréf TM eða 33 milljónir króna í einum viðskiptum og þá kom VÍS með 20 milljón króna veltu í þremur viðskiptum. Gengi bréfa VÍS, Eikar og Reginn hækkuðu um 0,9% í viðskiptum dagsins en TM hækkaði um 0,23%.

Örlítið meiri velta var á skuldabréfamarkaði þar sem veltan nam 1,8 milljörðum króna í átján viðskiptum. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa RIKS 26 og RIKS 30 lækkaði um fjóra punkta og RIKS 21 um tvo punkta.