Sóley Organics hefur hlotið lífræna vottun, svokallaða Ecocert & Cosmos vottun. Í tilkynningu segir að fyrirtækið sé fyrsta íslenska fyrirtækið sem hlýtur þessa tilteknu vottun. Meðal vara frá fyrirtækinu sem fá vottunina eru Græðir smyrsl, Græðir handáburður, Eygló andlitskrem, Hrein hreinsimjólk, Lind líkamskrem og Lóa handáburður. Ecocert er frönsk vottunarstofa og veitir vottun á lífrænum og náttúrulegum vörum.

Til að fá vottun frá stofunni þurfa 95% innihaldsefna að vera af lífrænum uppruna. Vottunin byggir á því að öll hráefni, s.s. olíur og jurtir, og framleiðsla sé lífrænt vottuð og umhverfisvæn. Þá er bann lagt við notkun kemískra efna. Lífræn vottun af þessu tagi er merki um að vottunarstofa hafi eftirlit með vörunni allt frá akri þar til hún fer í umbúðir. Sóley Elíasdóttir er stofnandi Sóley Organics.