„Þetta eru bara sögusagnir. Ég hef gefið það út að mér finnist mjög ólíklegt að ég haldi áfram eftir þetta kjörtímabil. En ég er ekkert að fara að hætta í pólitíkinni og flytja,“ segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, spurð hvað sé hæft í þeim þrálátu sögusögnum að hún ætli að hætta í borgarpólitíkinni áður en kjörtímabilinu lýkur og ætli að flytja erlendis.

Sóley hefur verið tengd borgarpólitíkinni í sex ár, í fyrstu sem varaborgarfulltrúi en borgarfulltrúi á yfirstandandi kjörtímabili. Næstu borgarstjórnarkosningar eru eftir tvö ár.

Spurð hvers vegna hún telji ekki líkur á að hún sitji lengur en þetta kjörtímabil segir Sóley að hún hafi aldrei ætlað sér að vera pólitíkus um aldur og ævi.

„Ég ætla að klára þetta kjörtímabil. Síðan kemur bara í ljós hvað gerist næst. Ég er ekki ennþá búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór. Það verður bara að koma í ljós. Lífið hefur upp á svo mörg tækifæri að bjóða,“ segir hún.