Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG í Reykjavík, ýjaði að því í gær að hún myndi ekki fara aftur í framboð.

Þetta sagði Sóley í „Beinni línu“ á dv.is. Sóley var þá spurð hvort hún stefndi á borgastjórastólinn eftir næsta kjörtímabil.

„... ég efast stórlega um að vera í framboði fyrir næsta kjörtímabil. Langar ekki að ílegnjast (sic!) í pólitík,“ svaraði Sóley.

Aðspurð hvort hún sjái fyrir sér meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn í borginni svaraði Sóley því neitandi, það væri allt of margt sem skildi flokkana að hugmyndafræðilega.

„Ég er samt enn spennt fyrir samstarfi allra flokka og vona að svoleiðis fyrirkomulag verði að veruleika einn daginn...,“ sagði Sóley.

Þá var Sóley jafnframt spurð um viðhorf sitt til kynjakvóta á þeim forsendum að vel starfandi mönnum væri ýtt úr stjórn vegna kynjakvóta. Sóley svaraði því til að kynjakvótar fengju stjórnendur til að „hugsa út fyrir rammann“ og það væri öllum hollt. Kvótar myndu aldrei leiða til þess að vanhæf kona tæki sæti í stjórn.

Sóley var jafnframt spurð að því hvort ummæli sem höfð voru eftir henni í blaðaviðtali - þar sem hún sagðist hafa verið í áfalli þegar hún komst að því að hún hefði eignast son – hefðu verið tekin úr samhengi. Sóley svaraði því játandi að hún hefði verið að vísa í þá áskorun sem það væri að ala upp dreng í samfélaginu og sér fyndist hún erfið þar sem hún ólst bara upp með stelpum. Seinna í sagði Sóley að verst þyki sér að einstaklingum hafi dottið í hug að reyna að koma því inn hjá syni hennar að hann væri ekki elskaður af mömmu sinni.

Þá sagði Sóley að vaxtaræktarkeppnir væru ekki af hinu góða, ekki frekar en fegurðarsamkeppnir.