Nýtt íslenskt leikjafyrirtæki, Sólfar Studios, hefur í dag lokið hlutafjáraukningu með þátttöku hóps erlendra og innlendra fjárfesta. Fjárfestingafélagið Investa, sem fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum, leggur til hlutafé ásamt fagfjárfestinum Vilhjálmi Þorsteinssyni en hann og Hilmar Gunnarsson frá Investa hafa tekið sæti í stjórn Sólfars. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er eintaklega ánægjulegt að fá svo breiðan hóp fjárfesta að félaginu hér á landi og ekki síður erlendis,” sagði Kjartan Pierre Emilsson framkvæmdastjóri Sólfars. „Aðkoma nýrra hluthafa sem sérhæfa sig í stuðningi við sprotafyrirtæki á borð við okkar mun reynast Sólfari vel, bæði hvað varðar tengslanet þeirra þegar kemur að vöruþróun og markaðssetningu sem og frekari fjármögnun félagsins á komandi misserum.”

Stofnendur Sólfars eru Reynir Harðarson, Kjartan Pierre Emilsson og Þorsteinn Högni Gunnarsson en þeir hafa allir unnið í tölvuleikja og hugbúnaðargeiranum í liðlega 20 ár, nú síðast hjá CCP þar sem þeir voru í stjórendahóp til margra ára og í tilfelli Reynis meðstofnandi þess félags.

Sólfar einbeitir sér alfarið að þróun og útgáfu leikja og upplifana fyrir sýndarveruleikabúnað á borð við Oculus Rift frá Facebook og Project Morpheus frá Sony, en þessi tól eru væntanleg á markað á komandi ári.