Huyaing Li hefur opnað ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Huaying travel service ehf. Markhópurinn er kínverskir ferðamenn sem vilja koma til Íslands. „Við sjáum um að bóka allar ferðir, gistingu, sjáum um mat eða hvað sem er sem kínverskir ferðamenn vilja gera þegar þeir koma til Íslands,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Huyaing Li flutti til Íslands árið 2002 og hefur starfað sem leiðsögumaður frá árinu 2003, en hún er sjálf fædd í Kína. Hugmyndin að stofnun félagsins segir hún hafa kviknað annars vegar vegna þess að kínverskir ferðamenn sem hún hafði í leiðsögn hafi gjarnan beðið hana um frekari aðstoð við skipulagningu ferðanna og hins vegar vegna þess að fjöldi ferðamanna frá Kína hafi stóraukist á seinustu árum.

Þegar farnar að taka við pöntunum

Dóttir Huaying aðstoðar hana við reksturinn, en hún heitir Yujie Tian. „Við erum þegar farnar að taka við pöntunum frá hópum af kínverskum ferðamönnum,“ segir Huaying, en félagið var skráð þann 18. nóvember síðastliðinn. Spurð hvers vegna hún telji Kínverja hafa áhuga á að ferðast alla leið til Íslands segir hún að það sé tvímælalaust íslensk náttúra. Það sé þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að finna fallegt landslag og náttúruperlur í Kína, heldur er hún einfaldlega öðruvísi. „Þeim þykir náttúran hér hreinsandi. Síðan er hún þögul og hér er ekki mikið af fólki,“ segir hún.

Kynna land og þjóð

Á vefsíðu félagsins er ýmis fróðleikur um íslenska sögu, náttúru og efnahagslíf. Íslenskt veður er þar að auki kynnt fyrir ferðamönnum. „Þó að landið heiti Ísland er það ekki svo kalt. Lægsta hitastig um vetur í Reykjavík er í kringum 7 gráðu frost og hæsta hitastigið á sumrin er minna en 25 gráður. Ísland er góður staður á sumrin,“ segir á vefsíðunni huayingtravel.com sem þær mæðgur hönnuðu sjálfar.

Kínverskir ferðamenn eru meðal þeirra sem eyða hvað mestu á ferðalögum sínum til annarra landa.