Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn. Framendaforritararnir Jana Olsanska og Franklín Þór Vale hafa nýlega tekið til starfa og sjá um notendaviðmót nýs tölvuleiks sem Solid Clouds hefur í vinnslu. Nýjasti starfsmaðurinn er svo Josh Raab, sem er leikjahönnuður frá Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Josh býr yfir mikilli reynslu úr tölvuleikjaheiminum, og hefur áður starfað á Íslandi við tölvuleikinn Sumer. Hann er með BA próf úr Columbia háskóla, og MFA gráðu í leikjahönnuð frá NYU Game Center.

Franklín Þór er um þessar mundir að ljúka BSc námi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur starfað sem framendaforritari og fengist við kennslu, auk þess að fást við eigin verkefni.

Jana er tékknesk að uppruna og vann áður sem vefforritari í Prag. Hún kom fyrst til Íslands til að ferðast og vinna í fjarvinnu, en tók ákvörðun um að aflýsa heimferðinni og vera kyrr á Íslandi þegar henni bauðst vinna hjá Solid Clouds.

Solid Clouds vinnur nú að fullu við gerð á nýjum töluvuleik, Starborne: Frontiers, sem er væntanlegur á næsta ári. Þá verður félagið senn fyrsta íslenska tölvuleikjafyrirtækið til að verða skráð í kauphöllina.