*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 12. júlí 2021 10:32

Solid Clouds komið á markað

Tölvuleikjafyrirtækið hefur hækkað um 12% frá útboðsgengi í fyrstu viðskiptum í morgun eftir töku til viðskipta.

Júlíus Þór Halldórsson
Stefán Gunnarsson & Stefán Björnsson, stofnendur Solid Clouds ásamt Sigurlínu Ingvarsdóttur stjórnarformanni hringja inn daginn í Kauphöllinni í dag.
Gígja Einars

Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds hefur verið tekið til viðskipta á First North hliðarmarkaði Kauphallarinnar. Þegar þetta er skrifað hafa 18 viðskipti átt sér stað fyrir alls 4,5 milljónir króna, og verðið stendur nú í 14 krónum, 12% yfir útboðsgenginu sem var 12,5 krónur á hlut.

Félagið hélt frumútboð í tengslum við skráningu í Kauphöllina í lok síðasta mánaðar, og bárust alls tilboð að andvirði 2,8 milljarða króna frá rétt tæpum 2.700 tilvonandi fjárfestum, sem samsvaraði um fjórfaldri eftirspurn.

32% hlutur var boðinn út, að meðtaldri stækkunarheimild sem var fullnýtt í ljósi mikillar eftirspurnar, sem skilaði félaginu 725 milljóna króna fjármögnun og heildarmarkaðsvirði upp á 2,3 milljarða króna.

Gefið hafði verið út að leitast yrði við að skerða ekki áskriftir undir 300 þúsund krónum, en í ljósi umframeftirspurnar var fjölda áskrifta hafnað. Meðal þess sem kom til álita við úthlutun var tímasetning skráningar, og voru áskriftir einstaklinga umfram 300 þúsund krónur skertar niður í þá upphæð, en 300 þúsund er lágmarksupphæð til að geta notið skattaafsláttar vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum.

Mikið líf að færast í First North
Félagið er það sjötta á First North markaðnum og 26. í Kauphöllinni, en flugfélagið Play fór einnig á First North nýlega eftir vel heppnað frumútboð þar sem eftirspurn var áttföld. Þá var Íslandsbanki skráður á aðalmarkað og tekinn til viðskipta í síðasta mánuði, með enn meiri umframeftirspurn.

First North markaðurinn hefur verið nokkuð rólegur, ef svo má að orði komast, síðustu ár, en þar voru fyrir Hampiðjan, fasteignaþróunarfélagið Kaldalón, Sláturfélag Suðurlands og Klappir grænar lausnir.

Hingað til hefur, ólíkt aðalmarkaði, ekki verið hægt að stunda viðskipti á First North í gegnum heimabanka, heldur þurft að hafa samband beint við viðskiptabankana. Því hefur hinsvegar verið breytt hjá bæði Arion banka og Íslandsbanka, sem nú bjóða upp á First North viðskipti í heimabankanum.

Stikkorð: First North Solid Clouds