Sólin skín ehf. skuldaði Glitni banka hátt í tíu milljarða króna að meðtöldum vöxtum og Baugi rúmlega þrjá milljarða króna samkvæmt ársreikningi félagsins vegna ársins 2009. Félagið var stofnað í maí 2008 utan um framvirk hlutabréfaviðskipti með hlutabréf í bresku verslunarkeðjunni Marks og Spencer.

Stærstu eigendur þess voru Baugur Group og Fons með um 80% eignarhlut. Baugur og Fons voru líka stærstu eigendur Glitnis fyrir bankahrun í gegnum FL Group. Aðrir eigendur voru Glitnir sjálfur og Kevin Stanford. Eignir Sólin skín ehf. voru 3,8 milljónir króna í lok árs 2009. Sólin skín var úrskurðað gjaldþrota í árslok 2009. Bæði skilanefnd Glitnis og þrotabú Baugs gerðu háar kröfur í bú félagsins en ljóst er að þær munu ekki fást greiddar.