Birgir Jónsson, forstjóri Play, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, eru afar bjartsýnir fyrir komandi ferðasumar.

Bókanir hjá íslensku flugfélögunum hafa tekið hressilega við sér eftir að tilkynnt var um tilslakanir í sóttvarnamálum. Útlit er fyrir besta ferðasumar síðan 2019, sem verði jafnvel svipað því sem þekkst hafi fyrir faraldurinn.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir félagið – þrátt fyrir hraða útbreiðslu Ómíkrónafbrigðisins síðustu mánuði – alltaf hafa verið bjartsýnt á sumarið, og áætlanir hafi verið unnar samkvæmt því.

Höfðu alltaf trú á góðu sumri
„Þó að Ómíkrón hafi verið í gangi þá vorum við á fullu að vinna að vorinu og sumrinu. Við tilkynntum þessa sumaráætlun í desember og erum að bæta við áfangastöðum. Við værum ekki að vinna þetta svona nema við værum bjartsýn á að þetta yrði nokkuð eðlilegt ferðasumar.“

Eins og staðan sé í dag stefni í þokkalega gott ferðasumar, og geri félagið ráð fyrir um 80% umsvifum fyrir árið í heild í samanburði við árið 2019.

„Það var náttúrulega gríðarleg óvissa, en við reiknuðum með því að ástandið myndi lagast og héldum áfram að undirbúa metnaðarfulla söluáætlun í sumar. Við höfðum alltaf trú á því að heimurinn myndi komast yfir þetta, og erum enn bjartsýnni í dag hvað það varðar en við vorum fyrir nokkrum mánuðum síðan.“

Icelandair skilaði uppgjöri fyrir síðasta ár á fimmtudag og greindi frá 13 milljarða króna tapi yfir árið, en lýsti því jafnframt yfir að stefnt sé að því að árið í ár verði það fyrsta til að skila félaginu hagnaði frá árinu 2017, með 3-5% EBIT-hlutfalli (hlutfall rekstrarhagnaðar af rekstrartekjum).

Allt að því „venjulegt“ sumar
Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, tekur í svipaðan streng og segir vorið og sumarið líta vel út. Staðan líti mjög vel út fyrir félagið, sem mun bæta við sig þremur flugvélum og hefja áætlunarflug vestur um haf nú í sumar, auk frekari fjölgunar áfangastaða. „Við virðumst hafa tímasett okkar aukningu alveg hárrétt.“

Birgir býst við hóflegri aukningu umsvifa strax í febrúar og mars, en flugið fari svo virkilega að taka við sér eftir það. Vorið og sumarið líti vel út, og verði jafnvel svipað því sem búast megi við á „venjulegu“ ári. „Fólk er að bóka bara eins og við mætti búast í venjulegu árferði,“ segir hann og telur ferðaþjónustuna í heild og fluggeirann á alþjóðavísu horfa svipuðum augum á málið.

Salan allt að því fjórfaldast
Báðir segja forstjórarnir að merkja megi mikinn upptakt í bókunum eftir að tilkynnt var um tilslakanir sóttvarnaráðstafana.

„Um leið og það koma jákvæðar fréttir og sóttvarnir og ferðatakmarkanir eru rýmkaðar þá taka bókanir við sér. Þannig er það búið að vera, og það er greinilega talsverð eftirspurn undirliggjandi,“ segir Bogi, en vill ekki fara nánar út í þróun síðustu vikna.

Birgir segir flugbókanir Íslendinga afar næmar fyrir ástandinu í faraldrinum og sóttvarnareglum. Dagleg flugmiðasala hafi allt að því fjórfaldast frá því fyrir um mánuði.

„Þegar Bretar tilkynntu um sínar afléttingar þá rauk salan upp til Íslands frá Englandi. Hér heima þarf ekki nema einn upplýsingafund með þríeykinu til að salan rjúki upp. Við höfum séð gríðarlegan vöxt á síðustu vikum, og heilt yfir erum við að sjá mjög mikinn hita á markaðnum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .