Fjármálaráðherra þýska sambandsríkisins North Rhine Westphalia, hefur ákveðið að fresta fyrirhugaðri sölu ríkisins á 38% hlut í landsbankanum (þ. landesbanken) WestLB. Helmut Linssen, fjármálaráðherra, segir að ákvörðunin sé tekin í kjölfar þess að WestLB sendi frá sér aðra afkomuviðvörunina á innan við einu ári.

Fram kemur í frétt Financial Times að ríkið hafi í meira en eitt ár viljað losa um hlut sinn í bankanum. Tap af fjárfestingabankastarfsemi WestLB hefur hins vegar rýrt markaðsverðmæti bankans og samhliða þeirri þróun hefur ríkinu reynst erfitt að finna hugsanlega kaupendur að hlut sínum. Á fyrstu sex mánuðum ársins tapaði WestLB ríflega 600 milljónum evra vegna spákaupmennsku á þýska hlutabréfamarkaðnum. Heildartap bankans á hluta- og skuldabréfamarkaðnum nemur um 1,1 milljarði evra á innan við ári.

Nánar er fjallað um frestunina í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins.