Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn gæti hagnast yfir sex milljarða króna á sölu hluta fjarskiptainnviða sinna ef samkomulag næst við fjárfesta í viðræðum sem langt eru komnar.

Um er að ræða svokallaða óvirka innviði, það er fjarskiptamöstur, ljósleiðarar og annar slíkur fastur búnaður sem nýtist til langs tíma, en félagið selur ekki svokallaða virka innviði sem er merkjabúnaðurinn sjálfur sem skipt er reglulega um.

Félagið tilkynnir um að það hafi í dag náð samkomulagi við erlenda fjárfesta um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu og endurleigu til 20 ára á því sem kallað er í tilkynningu óvirkir farsímainnviðir félagsins.

Segir félagið að ef af viðskiptunum yrði myndu þau styrkja efnahagsreikning félagsins og gæti væntur söluhagnaður Sýnar numið yfir sex milljörðum króna. Jafnframt að ráðgert sé að gera langtímaleigusamning til 20 ára, sem tryggja muni áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum.

Allur fyrrnefndur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar. Fjárhæðir og reikningshaldslega meðferð viðskiptanna mun þó ráðast af endanlegum samningum, sem eru meðal annars háð áreiðanleikakönnun og aðkomu eftirlitsstofnana.

Viðskiptablaðið ræddi á dögunum við Heiðar Guðjónsson forstjóra Sýnar um meðal annars íhlutanir bandarískra stjórnvalda gegn notkun á búnaði frá kínverska fyrirtækinu Huawaei sem Sýn nýtir í uppbyggingu 5G farsímakerfis síns.