Jólaverslun í verslunum Magasin du Nord gekk mjög vel og að sögn Jóns Björnssonar, framkvæmdastjóra félagsins, hefur sala verið heldur yfir væntingum. "Segja má að salan í desember hafi verið mjög jákvæð en það var 6,75% aukning miðað við desember í fyrra ef við reiknum það búð á móti búð. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2001 sem við sjáum aukningu í sölu," sagði Jón.

Nokkuð hefur verið fjallað um viðsnúninginn í dönskum fjölmiðlum og sagði viðskiptablaðið Börsen að svo virtist sem íslensku fjárfestarnir væru að ná tökum á rekstrinum. Jón var þó varkár í öllum yfirlýsingum, sagði að enn væri langt í land og félagið enn rekið með tapi. Þetta væru þó jákvæð teikn. "Á söluhliðinni eru hlutirnir að lagast en félagið er enn rekið með halla." Þess má geta að nú í janúar hefur sala félagsins aukist um 8%.

Ef salan undanfarin ár er skoðuð þá sést að jólaverslunin 2004 var 3,96% minni en árið á undan, árið 2003 var hún 5,41% minni og samdrátturinn árið 2002 var 1,25%. Árið 2001 var síðasta árið sem menn sáu söluaukningu. Aukningin nú er mjög mismunandi á milli deilda. Að sögn Jóns var 34% söluaukning í herrafatnaði, 23% aukning í dömufatnaði, 20% í skóm og 9% í snyrtivörum. Nokkur samdráttur varð hins vegar í sölu heimilistækja, að hluta til vegna þess að hætt var að selja raftæki undir merkjum Fona. Sömuleiðis var samdráttur í sölu á sportfatnaði og víni.

Miklar breytingar hafa verið í gangi á verslunum Magasin og sagði Jón að þeim væri hvergi nærri lokið. Þar hefðu orðið ákveðin kaflaskil í nóvember og þó aldrei hafi komið til þess að deildum væri lokað þá hefði þetta vissulega haft áhrif. "Það tekur alltaf tíma að fá fólk til að mæta aftur eftir að ráðist hefur verið í svona rask."

Birgjum fækkað verulega

Jón sagði að jafnt og þétt hefði verið unnið að því að bæta framlegð og hann sagðist halda að þeir ættu töluvert inni þar um leið og tækist að bæta innanhúskerfin. Þau væru þannig núna að þau kölluðu á töluvert vinnuafl og sjálfvirknin væri ekki nóg. Það hefði að mörgu leyti reynst tafsamara að klára þessa hluti en gert var ráð fyrir en Jón taldi að það ætti eftir að bæta framlegðina verulega.

Einnig hefur markvisst verið unnið við að skera niður fjölda þeirra birgja sem félagið á viðskipti við og hefur þeim þegar verið fækkað um 200. "Félag sem er velta 18 milljörðum þarf ekki á 1500 birgjum að halda, það held ég að sé nokkuð augljóst," sagði Jón. Stefnt er að því að koma birgjum félagsins niður fyrir 1.000 og sagði Jón að það myndi spara mikinn tíma og fyrirhöfn hjá stjórnendum félagsins og einfalda allt söluferlið.

Aðspurður sagði Jón að engin tækifæri hefðu skapast til þess að setja upp nýjar verslanir enda frekar verið áhersla á að fækka þeim. "Við teljum að það taki eitt til tvö ár að koma hlutunum í lag og áætlanir okar virðast ætla að ganga eftir. Salan er reyndar heldur betri en við áttum von á en það hefur tekið lengri tíma en við ætluðum að gera nauðsynlegar kerfisbreytingar og innleiða nýja tækni."