Apple birti í gær ársfjórðungsuppgjör. Aukning í sölu á iPhone hefur aldrei verið minni síðan síminn var fyrst settur á markað árið 2007. Mikil söluaukning var á síðasta ári eftir að fyrirtækið hafði stækkað skjáinn á nýjustu útgáfu símans. Nýjasta útgáfan inniheldur engar marktækar breytingar frá fyrri gerðum og hefur ekki vakið jafn mikinn áhuga kaupenda.

Apple greindi einnig frá því að sala í Kína væri farin að bera þess merki að efnahagur landsins væri að veikjast, en það er stærsti markaður Apple utan Bandaríkjanna. Um það bil tveir þriðju tekna Apple koma frá iPhone en auk þess að fá slæmar sölutölur á iPhone símunum hefur sala á iPad spjaldtölvum og tölvum frá fyrirtækinu dregist saman á síðustu tveimur árum.

Tim Cook sagði í samtali við The Wall Street Journal að fyrirtækið starfaði ekki milli ársfjórðunga, heldur væri það að horfa til lengra tímabils. Hann væri auk þess sannfærður að fyrirtækið væri á réttri leið.

Hagnaður Apple á tímabilinu var þó mjög góður. Félagið skilaði hagnaði sem nemur 18,4 milljörðum dala. Þetta er mesti hagnaður sem fyrirtæki hefur nokkurn tímann skilað á einum fjórðungi. Fyrra met átti Apple fyrir sama fjórðung árið áður, en þá var hagnaðurinn 18 milljarðar dala.

Fyrirtækið birti spá fyrir næsta ársfjórðung. Þar er gert ráð fyrir því að tekjur muni vera á bilinu 50-53 milljarðar dala. Miðað við miðgildi milli talnanna, 51,5 milljarða dala, þá er það 11% lækkun í tekjum frá sama ársfjórðungi árið áður. Þetta yrði þá í fyrsta skipti siðan árið 2013 sem tekjur fyrirtækisins lækka milli ára.

Gengi hlutabréfa í tæknirisanum féllu um 2% eftir að uppgjörið var birt en hlutabréfin hafa fallið um 16% frá því í október síðastliðinn.