Frestur til að skila inn óbindandi tilboðum í allar eigur heildsölufyrirtækisins Danól og Ölgerðarinnar Egils Skallagrímsson ehf. rann á miðvikudag í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er ljóst er að einhver áhugaverð tilboð hafa borist og viðræður í gangi þó ekki sé upplýst hverjir eiga þar hlut að máli.

Friðrik Einarsson, sérfræðingur á fyrirtækjasviði MP Fjárfestingabanka, sem annast söluferlið, segir að ferlinu sé nú haldið áfram samkvæmt áætlun sem gekk út á að opna gagnaherbergi Danól síðastliðinn mánudag ef áhugaverð tilboð bærust. Að öðrum kosti átti að slá söluna út af borðinu.

Hvorki Friðrik né Októ Einarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Danól, vildu tjá sig um stöðuna að svo stöddu.

"Við erum bara í viðræðum og höldum ferlinu áfram eins og áætlað var," sagði Friðrik. Hann vildi ekki upplýsa hverjir, eða hversu margir aðilar væru enn inni í myndinni, en á fimmta tug áhugasamra sóttu gögn um fyrirtækin á sínum tíma.

Ljóst er því að enn er ekki búið að slá söluna út af borðinu. Fyrirfram var gert ráð fyrir að tveim til þrem aðilum yrði hugsanlega hleypt inn í gagnaherbergi til að skoða fjármál fyrirtækjanna. Samkvæmt söluferli sem lagt var upp með, er ráðgert að því ljúki með framlagningu á bindandi tilboði þann 7. apríl.