Svo virðist sem söluferli Arion banka sé í uppnámi þar sem vog­un­ar­sjóður­inn Och-Ziff Capital Mana­gement Group hef­ur ekki lagt fram beiðni til Fjár­mála­eft­ir­lits­ins um að fá heim­ild til að fara með virk­an eign­ar­hlut í bank­an­um. Um málið er fjallað í Morgunblaðinu í dag.

Tilkynnt var um kaup vogunarsjóðsins á 6,6% hlut í Arion banka af Kaupþingi í mars síðastliðnum, en Och-Ziff Capital er einnig einn af stærstu eigendum Kaupþings. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ástæðan fyrir því að sjóðurinn hefur ekki lagt fram beiðni sú að aðstandendur hans meti það sem svo að alþjóðlega orðsporsáhættu felast í því ef Fjármálaeftirlitið muni hafna beiðninni. Félögin tvö sem keyptu hlut í Arion banka á sama tíma, Taconic Capital og Attestor Capital, hafa þegar tilkynnt FME að þau hyggist fara með virkan eignarhlut í bankanum.

Lækkuðu Och-Ziff Capital Management Group niður um flokk

Í mars síðastliðnum bárust einnig fréttir af því að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's hefði lækkað lánshæfiseinkunn Och-Ziff Capital Management Group niður um flokk þar sem það þokaðist niður úr efsta í næstefsta flokk í hávaxtaflokki (ruslflokki).

Í fréttinni kom fram að S&P hefði fært lánshæfiseinkunn sjóðsins úr BB+ niður í BB flokk, og að framtíðarhorfur sjóðsins séu neikvæðar, vegna þess að rekstur sjóðsins hafi versnað á síðustu misserum. Á átta mánuðum hefur gengi hlutabréfa Och-Ziff lækkað úr 4,49 dollurum niður í 2,34 dollara á hlut.

Í tilkynningu frá Arion banka vegna sölunni á bankanum kom eftirfarandi fram um sjóðinn: „Och-Ziff Capital Management Group er eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði sérhæfðrar eignastýringar og er virði eigna í stýringu þess um 34 milljarðar dollara. Aðalstöðvar Och-Ziff eru í New York en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í London, Hong Kong, Mumbai, Beijing, Shanghai og Houston. Meðal fjárfesta Och-Ziff eru lífeyrissjóðir, sjóðasjóðir, stofnanir og styrktarsjóðir, fyrirtæki og aðrar stofnanir, einkabankar og fjársterkir einstaklingar.“