*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 20. janúar 2021 19:03

Söluferli Hrím mikið tilfinningamál

Undanfarin ár hefur meðalvöxtur verslunarinnar verið um sjö prósent. Tinna Brá Baldvinsdóttir hefur rekið verslunina í yfir áratug.

Andrea Sigurðardóttir
Tinna Brá Baldvinsdóttir er framkvæmdastjóri og annar eigenda Hrím.
Eyþór Árnason

Hönnunar- og gjafavöruverslunin Hrím er komin í söluferli en verslunin er í jafnri eigu Tinnu Brár Baldvinsdóttur og Einars Arnar Einarssonar. Tinna opnaði verslunina fyrst árið 2010 á Akureyri með vinkonu sinni, en Tinna keypti hana út úr rekstrinum eftir um það bil árs rekstur. Einar Örn gekk síðan til liðs við Hrím fyrir um þremur árum.

Verslun Hrím er nú staðsett í Kringlunni og er um 200 fermetrar að stærð. Í versluninni má finna gott úrval vandaðra vara frá tæplega 70 framleiðendum, bæði innlendum og erlendum, en íslensk hönnun er sérstaklega í hávegum höfð.

Meðalvöxtur verið um 7%

Mikill gangur hefur verið á rekstri verslunarinnar undanfarin ár. Árlegur meðalvöxtur hefur verið um 7% frá árinu 2015 og hagnaður hefur aukist ár frá ári. Verslunin velti um 276 milljónum á liðnu ári, sem er aukning um ríflega 5% milli ára, þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi í heimsfaraldrinum, en þar spilaði netverslun stórt hlutverk.

„Sala Hrím á netinu tífaldaðist milli ára og sem dæmi heimsóttu 40 þúsundi manns heimasíðu Hrím í nóvember í kringum „Singles day" og Kringlukast. Velta verslunarinnar jókst þannig milli ára þrátt fyrir að ekki hafi orðið af mörgum veislum og athöfnum, svo sem fermingum, giftingum og afmælum, sem hafa verið sterkur tekjugrunnur fyrir félagið," segir Tinna.

Tinna og Einar Örn þakka fjárfestingu í innviðum félagsins tengdum nýrri heimasíðu og netsölu árangur ársins sem var að líða. Fyrirtækið var þannig tilbúið til að takast á við þann mikla vöxt sem varð í netsölu á síðasta ári.

Erfið ákvörðun að selja

Nýtt ár hefur farið vel af stað hjá Hrím og eru Tinna og Einar Örn bjartsýn á reksturinn fram undan. Nú standa þau hins vegar á persónulegum krossgötum og tóku því þá erfiðu ákvörðun að setja Hrím á sölu en Eldjárn Capital eru ráðgjafar þeirra í söluferlinu.

„Það er okkur mjög mikilvægt að allt í kringum söluferlið sé faglega unnið, enda er salan okkur mikið tilfinningamál. Við ákváðum því að leita til Eldjárn Capital og eru þeir ráðgjafar okkar í söluferlinu," segja þau Tinna og Einar Örn, og Tinna bætir við:

„Ákvörðunin um að setja Hrím á sölu var mér mjög erfið. Nær allur minn starfsferill hefur farið í að byggja verslunina upp frá því ég stofnaði hana fyrir áratug síðan. Mér þykir ofboðslega vænt um Hrím og lít á hana sem miðjubarnið mitt. Það skiptir mig miklu máli að koma versluninni vel fyrir í höndum nýrra eigenda. Ég mun takan virkan þátt í því með nýjum eigendum ef vilji verður fyrir hendi. Mér þykir mjög mikilvægt að konsepti Hrím verði haldið til haga, það er að segja að versluninni verði ekki umbylt við eigendaskiptin."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Viðtal við utanríkisráðherra um Brexit og framtíðarviðskiptasamband Íslands og Bretlands.
  • Skattrannsóknarstjóri telur að fyrirhugaðar breytingar á rannsókn og saksókn skattamála geti orðið til þess að draga úr innheimtuárangri. 
  • Tónlistarkonan Sylvía Erla Melsted gefur út heimildarmynd og barnabók um lesblindu til að stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu.
  • Fundað hefur verið bæði á þingi og í stjórn Íslandspósts vegna stöðu alþjónustunnar. Erindi til eftirlitsaðila eru ýmist á leiðinni eða hafa verið send.
  • Guðný Hildur Kristinsdóttir nýr framkvæmdastjóri hjá Útfarastofu kirkjugarðanna segir stofuna hafa skilað góðum hagnaði, en sjálf kemur hún úr hótelstjórnun og prentiðnaði.
  • Viðtal við Jón Daníelsson um bankakerfið eftir COVID-19 kreppuna.
  • Óðinn fjallar um Isavia og áhættu ríkisins.
  • Hrafnarnir eru á sínum stað og Týr segir Hafnfirðingabrandara í Reykjavík.