Skilanefnd Landsbankans hefur gefið skýrasta merkið um að hún hyggist selja bresku matvælakeðjuna Iceland til þess með því að sýna fjölda fjárfestingarbanka reksturinn. Svona hefst frétt breska viðskiptablaðsins Financial Times í dag en þar kemur fram að skilanefndin vilji fá 1,8-2 milljarða punda fyrir 66% hlut sinn í Iceland og muni á næstunni hefja viðtöl við fjárfestingarbanka í því skyni að finna hentugasta söluaðilann.

Fram kemur í fréttinni að þetta gerist um svipað leyti og Malcolm Walker, eigandi 26% hluta í Iceland, leggi af stað í leiðangur upp á Everest til þess að safna fé fyrir Alsheimer-samtökin í Bretlandi. Það mun þó eingöngu vera tilviljun að leiðangur Walkers og upphaf söluferlisins beri upp á sama tíma og hefur FT eftir skilanefndinni að Walker hafi verið upplýstur um hvað stæði til. Þess má geta að Walker hefur boðið skilanefndinni 1 milljarð punda fyrir hlutinn.

Líklegasti kaupandinn er talinn verða Wm Morrison, ein stærsta smásölukeðja Bretlands.