Icelandair Group hefur átt í lokasamningarviðræðum vegna fyrirhugaðrar sölu á dótturfélagi sínu Icelandair Hotels og tengdum fasteignum. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar er söluferli á hótelunum á lokastigi.

Gert er ráð fyrir því að Icelandair Group muni eiga 25% hlut í hinum seldu eignum en í apríl tilkynnti Icelandair Group að félagið ætlaði áfram að eiga 20% í keðjunni.

„Skjalagerð varðandi viðskiptin er ennþá í gangi og stefna aðilar að því að undirritun kaupsamnings eigi sér stað eigi síðar en 16.júlí nk.  Gert er ráð fyrir því að Icelandair Group muni eiga 25% hlut í hinum seldu eignum en að öðru leyti verður nánar gerð grein fyrir viðskiptunum í kjölfar undirritunar kaupsamnings," segir í tilkynningunni.

Greint hefur verið frá þv í að malasíska félagið Berjaya sé kaupandi hótelanna. Berjaya er skráð félag í Malasíu, en stofnandi þess, hinn 67 ára gamli malasíski auðkýfingur Vincent Tan, á um 23% í félaginu. Tan á einnig velska knattspyrnuliðið Cardiff City.

Samsteypan stundar meðal annars fjárfestingar, fasteignaviðskipti og framleiðslu og sölu neysluvara, auk þess að reka hótel, happdrætti, fjarskipta- og upplýsingatækni, og margt fleira.