Söluferli leigufélagsins Ölmu er á lokametrunum, en tilboðsfrestur rennur út mánudaginn 23. nóvember næstkomandi. Samkvæmt Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Ölmu, hefur áhugi verið umtalsverður bæði meðal innlendra og erlendra fjárfesta, þar með talið einkafjárfesta, stofnanafjárfesta og félaga í tengdum rekstri.

María Björk segir ýmis hagfelld skilyrði lúta að rekstri félagsins og rekstrarumhverfi þess, sem hún hefur trú á að skapi góðan jarðveg fyrir félagið, óháð því hvernig eignarhaldi verður háttað.

„Ytri aðstæður er félaginu mjög hagfelldar nú um mundir. Fasteignamarkaðurinn er almennt sterkur og lækkun stýrivaxta í gær kemur félaginu vel. Kórónufaraldurinn hefur haft óveruleg áhrif á kjarnarekstur félagsins, langtímaleigu húsnæðis, eftirspurn hefur haldist sterk og vanskil ekki aukist í þeim þrengingum sem nú ganga yfir," segir hún.

Borgarvæðing festir leiguformið í sessi

Að mati Maríu Bjarkar er leiguformið ótvírætt að festa sig í sessi sem öruggur og sveigjanlegur kostur hér á landi og segir mikinn vöxt framundan í geiranum. „Veruleg fólksfjölgun er fyrirséð á lykilsvæðum Ölmu, en því er spáð að íbúum á Höfuðborgarsvæðinu fjölgi um allt að fjörutíu- til fimmtíu þúsund á næstu tuttugu árum. Traustur húsnæðismarkaður er því mikilvægur í viðspyrnunni sem framundan er."

„Það eru sterkt trend í hinum vestræna heimi að hlutur faglegra íbúðafélaga í eigu stofnanafjárfesta er að aukast. Við höfum til að mynda séð gríðarlegan vöxt í „Build-to-rent" geiranum á Bretlandi og „Multifamily" geiranum í Bandaríkjunum, en einnig á mörkuðum þar sem sterkur leigumarkaður á sér lengri sögu, svo sem í Skandinavíu og þýskumælandi löndum Evrópu," segir María Björk.

Hún segir þróunina drifna áfram af borgarvæðingu (e. urbanization), þar sem margir af yngri kynslóðum kunni að meta þann sveigjanleika og þjónustu sem fylgir því að leigja. Auk þess vilji yngri hópurinn gjarnan búa á svæðum þar sem fasteignaverð er hátt en hafi hvorki tök né áhuga á þeirri skuldsetningu sem því fylgir að fjárfesta í eignum á þeim svæðum.

„Á þessum mörkuðum spila fagleg íbúðafélög lykilhlutverk í þróun og uppbyggingu nýrra borgarreita þar sem áhersla er lögð á staðsetningu sem tryggir gott aðgengi að almenningssamgöngum, atvinnu og þjónustu. Þar spila íbúðar- og atvinnuhúsnæðisfjárfestingar saman og styðja við aukið virði fyrir alla aðila keðjunnar," segir María Björk.

Stefna á First North ef sala klárast ekki

María Björk segir Ölmu vera vænlegan fjárfestingakost fyrir fjárfesta sem leitast eftir góðri og stöðugri ávöxtun. „Það felast bæði tækifæri í stækkun félagsins sem og frekari vinnu með eignasafnið og fjármögnunina," segir hún.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hefur umsjón með söluferlinu, sem líkt og fyrr segir er á lokametrunum. María segir Ölmu vera stóran bita og því ekki víst að hægt sé að mynda fjárfestahóp sem geti gleypt hann í einu lagi. Hugnist þau tilboð sem berast ekki núverandi eiganda verði ráðist í skráningu á First North markaðinn. Komi til þess verður Alma eina skráða félagið í þessum geira á Íslandi.

„Ef sala verður ekki kláruð í þessu ferli er stefnt að skráningu félagsins á First North markaðinn innan fárra vikna. Slík niðurstaða væri ekki síðri kostur fyrir eigendur félagsins þar sem sterkur kjarnarekstur og hagfelldar ytri aðstæður ættu að styðja við gott gengi félagsins á markaði," segir María Björk.