*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 2. júlí 2020 17:40

Söluferli rekstrareininga Wirecard hafið

Skiptastjóri þrotabús Wirecard mun bráðlega leita til fjármálabanka um mögulega sölu á dótturfyrirtækjum þess.

Ritstjórn
epa

Skiptastjóri Wirecard hefur sagt að fjölmörg fyrirtæki hafi sýnt áhuga á að kaupa hluta af þýska fjártæknifyrirtækinu sem sótti um gjaldþrotaskipti fyrir viku síðan. 

Michael Jaffé, einn af leiðandi sérfræðingum í flóknum gjaldþrotaskiptum í Þýskalandi, mun bráðlega leita til fjárfestingabanka til þess að sjá um mögulega sölu á nokkrum rekstrareiningum Wirecard.

Í tilkynningu frá því þriðjudag segir Jaffé að eftir að hafa fundað með fulltrúum lánveitenda sé helsta markmiðið að halda dótturfélögum Wirecard í rekstri og tryggja þeim rekstrargrundvöll. Tekjur Wirecard koma frá þóknunum af færslum smásala. 

Sala á dótturfyrirtækjum Wirecard þarf að klárast á næstu vikum, annars glatast virði þeirra, segir fólk með þekkingu á málinu. „Wirecard á mjög fáar áþreifanlegar eignir, og hætta er á að margir af viðskiptavinum þess færi sig yfir til samkeppnisaðila,“ er haft eftir einum aðila í frétt Financial Times

Jaffé, sem var kjörin skiptastjóri af dómstólum í Munchen í síðustu viku, nafngreindi engin nöfn mögulegra kaupenda. 

Málið hefur nú þegar truflað þjónustu hjá viðskiptavinum sem nýta sér tækni Wirecard í gegnum ýmis konar fjártækniöpp (e. fintech apps). Breska fjármálaeftirlitið lagði bann á starfsemi breska dótturfélagið Wirecard Card Solutions en banninu var aflétt síðasta mánudag. 

Wirecard North America, áður Prepaid Card Services í eigu bankans Citigroup, sem þýska fyrirtækið tók yfir árið 2016, var sett í söluferli fyrr í vikunni en fyrirtækið segir að starfsemi þess sé enn í gangi. 

Gengi hlutabréfa Wirecard hefur fallið um meira en 95% frá því að fyrirtækið greindi fyrst frá því að 1,9 milljarðar evra væru týndir af efnahagsreikningi þess fyrir tveimur vikum síðan. Markaðsvirði félagsins hefur því lækkað um 12 milljarða evra.

Stikkorð: Wirecard