Sjávarútvegsfyrirtækið Pacific Andes International Holdings er nærri því að ljúka við kaup á rekstri Icelandic Group í Þýskalandi og Frakklandi, samkvæmt heimildum fréttamiðilsins IntraFish.

Skip
Skip
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Um er að ræða fyrirtækin Pickenpack, Hussmann & Hahn Seafood og Pickenpack Gelmer í Þýskalandi og Frakklandi. Rabobank vinnur að sölu fyrirtækjanna, samkvæmt heimildum IntraFish. Framkvæmdastjóri Pacific Andes, Joo Siang Ng, hefur þó sagt að fjárfestingar í Evrópu séu ekki hluti af viðskiptaáætlun félagsins. Í samtali við IntraFish segir Ng að Pacific Andes hugsi fyrst og fremst um að stækka í Kína. Fjárfestingar i Evrópu séu því ekki efstar á forgangslista.

Líkt og áður segir herma heimildir Intrafish þó að Pacific Andes sé að ljúka við kaupin. Einn heimildarmanna telur að félagið vilji ganga frá kaupunum fyrir sjávarafurðasýninguna í Brussel. Þar vilji enginn að óstaðfestur orðrómur gangi um sig.

Talið er að fjárfestingin nemi á bilinu 70 til 100 milljóna evra. Velta Pickenpack og Pickenpack Gelmer er um 300 milljónir evra, af um 997 milljóna evra veltu Icelandic Group. Í frétt IntraFish kemur fram að tap hefur verið af rekstri í Frakklandi á síðustu árum. Tapið nemur alls um 60 milljónum evra frá því að Icelandic keypti félagið en það myndi kosta um 40 milljónir evra að loka verksmiðjunni, samkvæmt heimildarmanni IntraFish.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) er stærsti eigandi Icelandic Group. Sjóðurinn ákvað að selja Icelandic Group í hlutum, eftir að viðræðum var slitið við fjárfestingasjóðinn Triton. Bank of America Merrill Lynch hefur séð um söluferlið.

Þegar Framtakssjóðurinn hafnaði tilboði Triton gaf sjóðurinn það út að söluferlið yrði opnara en það var áður. Í frétt IntraFish segir að það virðist ekki vera raunin er kemur að sölunni á Pickenpack. Þó er enn ekki útilokað að verksmiðjurnar verði seldar í opnu söluferli, segir IntraFish. Í fréttinni kemur einnig fram að Pacific Andes var sagt hafa gert tilboð í Icelandic Group í heild áður en viðræður hófust við Triton.