Stoðir, áður FL Group, hefur nú með formlegum hætti greint frá því að Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafi verið falið að annast söllu á öllu hlutafé sínu í Tryggingamiðstöðinni, TM. Um er að ræða nær allt hlutafé tryggingafyrirtækisins, 99,94% hlut. Eignin er boðin til sölu ýmist í heild eða að hluta.

TM er á meðal eldri fyrirtækja landsins en það var stofnað fyrir 56 árum. FL Group eignaðist nær allt hlutafé í tryggingafélaginu síðla árs 2007 þegar það keypti hlut Glitnis og fleiri. Á meðal fyrri eigenda fyrir kaup FL Group voru Guðbjörg Matthíasdóttir og Samherji.

Viðskiptablaðið greindi frá því í desember að verið væri að semja um það að Landsbankinn færi með söluna á hlut Stoða í TM. Helstu eigendur stoða eftir fall FL Group eru þrotabú Glitnis, Landsbankinn og Arion banki.

Áætlað verðmæti eignahlutar Stoða í TM er áætlaður á bilinu 10 til 15 milljarðar króna. Þá kom fram í Viðskiptablaðinu að eftir talsverðu sé að slægjast fyrir þann sem selur hlutinn en fram kom í Viðskiptablaðinu í janúar að þóknun Fyrirtækjaráðgjafarinnar geti numið á bilinu 5-6% af söluverðmætinu. Gangi það eftir gæti þóknunin numið  frá hálfum milljarði króna til 900 milljóna ef miðað er við lægsta og hæsta gildi.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM