Frumsýning Harry Potter
Frumsýning Harry Potter
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Áttunda og síðasta bíómyndin um baráttu galdrastráksins Harry Potter og vina hans við hinn illa Voldemort var frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins, og í raun heimsins alls, í gær. Þar með hefur verið settur punktur við þetta risavaxna kvikmyndaverkefni, að minnsta kosti í bili enda hefur J. K. Rowling – höfundur bókanna um Harry og félaga – látið hafa það eftir sér að svo geti vel farið að hún dusti rykið af ritvélinni og klambri saman einni bók til viðbótar um þau Harry, Ron Weasley og Hermione Granger. Fari svo er varla hægt að útiloka að fleiri kvikmyndir verði einnig gerðar en það er önnur saga.

Eins og áður segir verður kvikmyndun bókanna um Harry Potter að teljast risavaxið verkefni en óhætt er að segja að sigurför þessa ævintýris um heiminn eigi sér fá, ef nokkur fordæmi, í sögunni. Fyrsta bókin kom út árið 1997 og síðan hafa um 450 milljónir eintaka selst af bókunum sjö um Harry Potter og hafa þær verið gefnar út á 67 mismunandi tungumálum. Til samanburðar má geta þess að Millenium-þrílógían eftir Stieg Larsson, annar bókaflokkur sem notið hefur fádæma vinsælda á undanförnum árum, hefur selst í um 60 milljónum eintaka og komið út í um 50 löndum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.