Marel kynnti í gær uppgjör þriðja ársfjórðungs en í því var ljóst að töluverður viðsnúningur hefur verið á rekstri fyrirtækisins. Hagnaður þess nam 9,8 milljónum evra á ársfjórðungnum sem er nokkuð meira en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam sex milljónum evra. Að sögn Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel, er þetta söluhæsti ársfjórðungur fyrirtækisins frá upphafi.

Árni Oddur segir að þrír þættir hafi aðallega legið að baki viðsnúningnum. Í fyrsta lagi hafa aðstæður á mörkuðum batnað, í öðru lagi hafi fyrirtækið lagst í mikla nýsköpunarstarfsemi á árinu og í þriðja lagi hafi Marel hafið umfangsmikla endurskipulagningu á rekstri fyrirtækisins.

Spurður að því hvernig erfiðar aðstæður í Evrópu hafa á afkomu Marels til framtíðar segir Árni Oddur að Marel sé alþjóðlegt fyrirtæki sem sæki á marga markaði utan Evrópu. Utan sóknar í Bandaríkjunum er Marel að fara að leggjast í mörg smærri verkefni í Asíu, Afríku og Suður Ameríku á næstunni.

VB Sjónvarp ræddi við Árna Odd.