WOW air var með 95% sætanýtingu að meðaltali á öllum flugum til og frá Íslandi á öllum áfangastöðum félagsins í ágúst. Félagið flutti 74.600 farþega í ágúst og hefur flutt 353.300 farþega það sem af er ári.

Er þetta besta sætanýting í sögu félagsins og hefur aukning á ferðamannastraumi til Íslands þar töluverð áhrif.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segist ánægður með þessa auknu sætanýtingu hjá félaginu, „Bókunarstaðan út árið er mjög góð og mun betri en á sama tíma í fyrra þannig að við erum bjartsýn með framhaldið. Við höfum sett okkur það sem markmið að bjóða ávallt lægstu verðin til og frá Íslandi og er hægt að tekja þessa aukningu á farþegum til þessarar stefnu okkar.“