Tinder, Netflix og Tencent voru söluhæstu öppin á árinu sem eru að líða, þegar horft er til sölu á þjónustu í smáforritunum að því er fram kemur í samantekt App Annie´s sem Bloomberg fréttaveitan greinir frá.

Það er þó ef tölvuleikjaöpp eru undanskilin, en þau skila langmestu tekjunum af sölu á rafrænum myntum sem notaðar eru í leikjunum og uppfærslum, en myndbandsforrit eru ráðandi þess utan. App Annie´s segir árið 2019 stefna í að verða metár, bæði í niðurhali á öppum og neyslu viðskiptavina þeirra, ef horft er á gögn frá janúar til nóvembermánaðar.

Staða Tinder efst á listanum er þó sögð ekki eiga að geta komið á óvart, þar sem félaginu InterActiveCorp sem að baki því, og fjölda annarra stefnumótakerfa, stendur hafi tekist að virkja tekjumöguleika þess með áskrift.

Á árabilinu 2014 til 2019 hefur tekjuaukning stefnumótaforrita eins og Tinder vaxið um 920%, og stefni hún nú að verða meira en 2,2 milljarðar dala, eða sem samsvarar.

Facebook með forskotið í sex ár

Samt sem áður heldur Facebook sögulegu forskoti sínu á smáforritamarkaðnum sjötta árið í röð, þar sem þau þrjú öpp sem mest er hlaðið niður um heim allan eru Facebook Messenger , Facebook sjálft og WhatsApp .

Þegar árið er liðið býst App Annie við að viðskiptavinir hafi hlaðið niður samanlagt 120 milljörðum nýrra smáforrita á bæði App Store Apple fyrirtækisins og Google Play Store, það er ef ekki er tekið tillit til allra uppfærslna.

Er það 5% aukning frá fyrra ári, og býst fyrirtækið, sem fylgist með notkun smáforrita, við því að metið verði einnig slegið á næsta ári. Tekjur af viðskiptunum hafa vaxið um 15% á ári, og stefna þær í að ná 90 milljörðum dala á þessu ári.

Candy Crush áfram á topplistanum

Vinsælasta leikjaappið er Free Fire , frá Sea Ltd, en næst á eftir kemur PUBG Mobile frá Tencent, en annað app frá fyrirtækinu, Call of Duty: Mobile hefur einnig komist á topp 10 listann þó hafi ekki verið sett á markað fyrr en í október.

Fate/Grand Order frá Sony var hins vegar það app sem skilaði mestum hagnaði á árinu, en næst þar á eftir var Honour of Kings frá Tencent og svo Candy Crush Saga frá Activision Blizzard. Allir þrír leikirnir eru ókeypis en tekjurnar koma frá litlum innkaupum sem hægt er að gera í leiknum og uppfærslum.

Smáforrit sem vöktu sérstaka athygli App Annie eru Likee frá YY Inc., en appið er gert til að deila stuttum myndböndum líkt og TikTog, því eftirspurnin eftir því jókst mest á árinu. Tvö önnur öpp frá sama fyrirtæki voru meðal þeirra fjögurra sem uxu mest, það er Noizz sem er notað til að klippa til myndbönd og Hago sem er félagsleikur sem er sérstaklega vinsæll meðal ungs fólks í Indónesíu.