Baugur hefur selt hlut sinn í House of Fraser en félagið átti 10,1% hlut í félaginu og er söluhagnaður félagsins í kringum 1,3 milljarða íslenskra króna samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Gunnar S. Sigurðsson, fjármálastjóri Baugs Group segir í viðtali við blaðið að félagið hafa fengið gott tilboð í hlutinn sem það hafi ákveðið að taka. Kaupverð hlutarins voru tveir milljarðar og er söluandvirði um 3,4 milljarðar.

Í kjölfar sölu Baugs á hlut sínum í House of Fraser hafa breskir fjölmiðlar verið að velta fyrir sér hvað Baugur geri næst. Getgátur eru uppi um að Baugur hyggist selja 22% hlut sinn í Big Food Group en einnig að Baugur hyggist yfirtaka félagið. Viðskiptablaðið telur líklegra að Baugur reyni yfirtöku á Big Food Group heldur en félagið selji sinn hlut. Kaupverð Baugs í Big Food Group voru rúmir fjórir milljarðar og verðmæti hlutarins er nú tæpir níu milljarðar króna. Horfur í rekstri Big Food Group eru ekki jákvæðar og því er ólíklegt að Baugur gæti selt hlutinn á verði sem félagið sættir sig við þrátt fyrir töluverðan óinnleystan gengishagnað. Samkvæmt talsmanni Baugs liggur félaginu ekki á að losa peninga og því geta þeir átt hlut sinn í Big Food Group áfram.

Baugur hefur lýst yfir áhuga á að kaupa verslanakeðjuna Hobbs, sem er tískukeðja í dýrari kantinum. Á næstu dögum mun koma í ljós við hverja verður rætt um kaup á Hobbs. Gert er ráð fyrir að verslanakeðjan kosti í kringum 100 milljón pund eða 13 milljarða íslenskra króna.

Stærsti hluti eigna Baugs í Bretlandi er í óskráðum eignum og er eðlilegt að félagið einbeiti sér að rekstri þeirra félaga segir í frétt Viðskiptablaðsins.