Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um tekjuskatt hefur vakið upp hörð viðbrögð í atvinnulífinu en verði það að lögum kann það að hafa þær afleiðingar að ríkið muni innheimta 18% skatt af söluhagnaði sé hann innleystur innan tólf mánaða frá fjárfestingu. Í raun hefur slíkur skattur ekki verið innheimtur áður og telja því margir að taki frumvarpið gildi verði skattaumhverfi fyrirtækja hér á landi óhagstæðara en nú er.

Í núverandi lögum er söluhagnaður almennt skattskyldur en heimildir eru til þess að fresta greiðslum ef endurfjárfest er í öðrum hlutabréfum. Þessi skipan mála hefur meðal annars gert það að verkum að fyrirtæki geta komist hjá því að borga skatt af söluhagnaðinum. Hinsvegar þurfa fjármálafyrirtæki að færa til bókar skattaskuldbindingar sem þau greiða ekki fyrr en söluhagnaður er innleystur.

Þetta hefur verið gagnrýnt og ákváðu stjórnvöld að koma til móts við þau sjónarmið með frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi. Taki það gildi mun frestunarmöguleikinn verða aflagður en á sama tíma verður skattlagning söluhagnaðar jafnframt aflögð. Hins vegar kveður frumvarpið sem nú er til meðferðar á um að skattlagningin er einungis undanþegin ef eignarhald fjárfestingarinnar varir í meira en eitt ár.

Að mati sérfræðinga sem Viðskiptablaðið ráðfærði sig við er þetta ákvæði á skjön við þá þróun sem hefur átt sér stað í nágrannaríkjunum þar sem að stjórnvöld hafa verið að feta sig í þá átt að afnema skatt af söluhagnaði hlutabréfa. Jafnvel er óttast að frumvarpið, fari það óbreytt í gegnum þingið, verði til þess að fjármálafyrirtæki fari með hluta starfsemi sinnar úr landi. Noregur hefur verið nefndur sem áfangastaður í því samhengi en þar er söluhagnaður vegna hlutabréfaviðskipta ekki skattlagður.

Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, staðfestir að fulltrúar atvinnulífsins hafi gert athugasemdir vegna fyrirhugaðra breytinga. Hún segir að umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið sé á leið til fjármálaráðuneytisins og býst við að tekið verði tillit þess sem þar kemur fram.

"Umleitan stjórnvalda til þess að mynda hagfellt skattaumhverfi hér á landi er vissulega ánægjuleg og margt gott hefur verið gert í þeim efnum. Því ber að fagna vilja stjórnvalda til þess að halda áfram í þeim efnum," segir Halla en bætir við: "Hinsvegar verða stjórnvöld að hafa einföldu skattkerfisins að leiðarljósi og forðast óþarfa flækjur sem kunna að skapa vandamál."

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, segist vera kunnugt um þær athugasemdir sem hafa verið settar fram við frumvarpið en bendir á að málið sé ekki enn komið á borð nefndarinnar. Birgir bætir við að þegar nefndin taki málið til umfjöllunar verði farið vandlega yfir allar þær athugasemdir sem kunni að koma fram.