Audi AG setti enn eitt sölumetið á síðasta ári þegar fyrirtækið rauf milljón bifreiða múrinn í fyrsta sinn.

Alls seldust 1,003,400 Audi bifreiðar á síðasta ári sem er 4,1% söluaukning frá árinu á undan. Sala á Audi Q5 og A4 í desembermánuði í fyrra var 17,4% meiri en á sama tímabili 2007.

Stöðug aukning hefur verið í sölu Audi-bifreiða sl. 13 ár. Söluaukning í Vestur-Evrópu í desember 2008 var 22,7% miðað við sama tímabil árið 2007.

Söluaukning í Asíu á sama tímabili var 15,6%. Í Bandaríkjunum, sem er þriðji stærsti útflutningsmarkaður Audibifreiða, dróst sala á árinu 2008 saman um 6,1% miðað við árið 2007 og sala í desembermánuði var 9,3 minni en í desember 2007.

Rupert Stadler, stjórnarformaður Audi AG, segir fyrirtækið ætla að nýta sér þennan meðbyr í því erfiða árferði sem nú við blasir. „Við erum með háleit framtíðarmarkmið og viljum gera Audi að fyrsta kosti í flokki lúxusbifreiða á heimsvísu.“