Bílaframleiðandinn Jaguar Land Rover seldi rúmlega 314.400 bíla á síðasta ári. Þetta er 29% aukning á milli ára og skilaði fyrirtækinu 4,14 milljóna punda tekjum. Þær hafa aldrei verið meiri í sögu fyrirtækisins. Rekstrarhagnaður Jaguar Land Rover nam 1,5 milljörðum punda, jafnvirði 305 milljörðum króna, í fyrra. Það var rúmlega 33% aukning á milli ára.

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins, BBC, af málinu að bílar af gerðinni Range Rover Evoque hafi selst einkar vel, ekki síst í Kína og í öðrum nýmarkaðsríkjum.

Land Rover og Jaguar voru lengi meðal þekktari vörumerkja í Bretlandi. Það er hins vegar löngu liðin tíð en bandaríski bílarisinn Ford keypti fyrirtækin árið 2002. Indverska iðnsamsteypan Tata Motors keypti svo fyrirtækin þegar halla tók undan fæti hjá Ford árið 2008 og hefur rekið bæði fyrirtækin undir einu og sama nafninu. Framleiðsla á bílum fyrirtækisins fer þrátt fyrir þetta enn fram í Bretlandi.