Sala hjá bresku verslunarkeðjunni Woolworths Group, sem er að 10% í eigu Baugs Group dróst saman um 7,7% á fyrri helmingi ársins. Undanfarna mánuði hefur verið á kreiki orðrómur um hugsanlega yfirtöku Baugs á fyrirtækinu.

Sala fyrstu 25 vikur ársins dróst saman um 3,1% þegar ekki er tekið tillit til þess að nýjar verslanir hafa verið opnaðar og öðrum lokað. Sambærilegar sölutölur sýna 7,7% minni sölu. Trevor Bish-Jones, framkvæmdastjóri keðjunnar sagði í tilkynningu að staðan í smásölugeiranum væri erfið en að fyrirtækið myndi reyna áfram að bæta stöðuna, meðal annars með því að auka skilvirkni.

Woolworths rekur 821 verslun um gjörvallt Bretland og selur leikföng, barnaföt, sætindi, vörur tengdar afþreyingu og annað til heimilisins. Sérfræðingar höfðu reiknað með betri sölutölum og hafa endurskoðað spár um hagnað fyrirtækisins.

Í júnímánuði tilkynnti Woolworths að salan á fyrstu 19 vikum ársins hefði dregist saman um 6,7%.
Að mati sérfræðinga hefur veðurfar í Bretlandi auk heimsmeistaramótsins í fótbolta haft áhrif á sölu Woolworths og dregið úr heimsóknum í verslanirnar. Bish-Jones framkæmdastjóri fyrirtækisins, sagði að það hefði einnig reiknað með betri sölutölum en tók jafnframt fram að síðari hluti ársins væri sá tími sem mest sala færi fram og að aðstæður yrðu fyrirtækinu hagstæðari þegar nær drægi jólum.

Ennfremur tók hann undir að veðrið ætti nokkra sök á slöku gengi fyrirtækisins. Engu að síður hefur sala á sumarfatnaði og garðvörum gengið vel en sala á sælgæti og afþreyingarvarningi verið erfiðari. Fyrirtækið hefur á liðnum mánuðum bætt framlegð sína annars vegar með endurbótum á aðfangakeðju sinni og hins vegar með sölu á vörum með hærri framlegð.

Woolworths hefur breytt 70 verslana sinna í 10/10 verslanir á árinu og þær skiluðu aukinni sölu. Er ætlunin að gera endurbætur á 200 verslunum áður en jólavertíðin hefst. Sérfræðingur hjá Seymour Pierce sagði að í hvert sinn sem bréf fyrirtækisins færu upp fyrir 30 pens væri það vegna sögusagna um hugsanlega yfirtöku en tók fram að yfirtaka væri ekki líkleg eins og málin stæðu.