Breska tískuvöruverslunarkeðjan Burberry greindi frá því í gær að sölutekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi, sem lauk 30. júní síðastliðinn, hefðu aukist um 30% miðað við sama tíma í fyrra.

Samtals námu sölutekjurnar 167,5 milljónum punda. Undirliggjandi sala á smásöluvarningi jókst um 25%, en sala á heildsöluvörum hækkaði um 51%.

Burberry opnaði 9 nýjar verslanir á ársfjórðungnum. Þrátt fyrir góða rekstrarafkomu félagsins lækkuðu bréf í fyrirtækinu í verði um 1,41% í viðskiptum á hlutabréfamarkaði í London í gær.