Bandaríska smásölufyrirtækið Wal-Mart greindi frá því í gær að sölutekjur fyrirtækisins í nýliðnum marsmánuði hefðu aukist um 4% frá því á sama tímabili í fyrra og námu tekjurnar samtals 34,26 milljörðum Bandaríkjadala.

Þessi góða afkoma var nokkuð yfir væntingum félagsins en það hafði gert ráð fyrir að sölutekjur þess myndu aukast um eitt til tvö prósent. Hins vegar sögðu stjórnendur Wal-Mart í samtali við Dow Jones fréttastofuna í gær að þeir byggjust við því að sölutekjurnar myndu dragast saman í næsta mánuði.