Georg Lúðvíksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Meniga, vonar að evrópskir neytendur geti byrjað að fylgjast með fjármálum sínum, með hjálp Meniga, innan árs.

„Sölu- og markaðssvið Meniga er í Stokkhólmi og við erum vel á veg komin í söluferlum með nokkrum evrópskum bönkum,“ segir hann.

„Við erum mjög bjartsýn enda erum við með góða vöru á góðum tíma. Fólk á fleiri stöðum en á Íslandi er í vandræðum með fjármál sín og vill fylgjast betur með þeim. Bankar eru í auknum mæli að kynna sér lausnir líkt og við bjóðum upp á fyrir viðskiptavini,“ segir Georg og bætir við að þessi tegund lausna er stutt á veg komin í Evrópu.

Íslandsbanki annar í Evrópu

„Þetta er lengst komið í Bandaríkjunum þar sem um hundrað bankar bjóða upp á þjónustu í ætt við þessa, en afar fáir í Evrópu og var Íslandsbanki annar bankinn í Evrópu til að bjóða viðskiptavinum sínum þjónustu á borð við Meniga,“ segir Georg.