Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei mælst jafn stuttur og í maí en hann var 38 dagar að jafnaði sé miðað við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal. Á landsbyggðinni var meðalsölutíminn 76 dagar sem er nálægt því lægsta sem mæst hefur, að því er kemur fram í mánaðarskýrslu HMS fyrir júlí .

Gefnir voru út 1.156 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í maí, þar af 707 á höfuðborgarsvæðinu, 231 í nágrenni höfuðborgarsvæðinu og 218 á landsbyggðinni. Fjöldi kaupsamninga hefur aðeins einu sinnu verið hærri í maímánuði frá því að mælingar hófust en það var árið 2007.

„Þó virðist aðeins hafa hægt á en þetta er í fyrsta sinn síðan í ágúst á síðasta ári sem ekki er slegið met í fjölda kaupsamninga miðað við árstíma,“ segir í skýrslunni. Hluti af ástæðunni fyrir færri kaupsamningum skýrist af því að framboð íbúða hefur minnkað verulega undanfarið.

Nú eru tæplega 1.800 íbúðir auglýstar til sölu á landinu öllu og hafa ekki verið færri frá upphafi mælinga um haustið 2017. Þegar mest lét í maí í fyrra voru rétt tæplega 4.000 íbúðir til sölu. Á höfuðborgarsvæðinu eru 858 auglýstar íbúðir, þar af 185 nýjar. Á landsbyggðinni voru 568 íbúðir auglýstar, þar af 39 nýjar.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS fyrir júlí.

Aldrei fleiri íbúðir selst yfir ásettu verði

Þá segir hagdeild HMS að ýmsir mælikvarðar gefi til kynna að enn sé mikill eftirspurnarþrýstingur á fasteignamarkaði. Um 32% seldra íbúða á öllu landinu seldust yfir ásettu verði í maí sem er methlutfall frá upphafi mælinga í janúar 2013. Hlutfallið var hæst fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu þar sem 42,7% fasteigna seldust á hærra verði en auglýst var. Jafnframt seldust 37,2% íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu á yfirverði.

Á höfuðborgarsvæðinu var hátt hlutfall íbúða sem seldust yfir ásettu verði í öllum verðflokkum en þó var hlutfallið lægst á meðal íbúða sem seldust á undir 35 milljónum króna og hæst á meðal íbúða á bilinu 45-75 milljónum.

Fram kemur að þrátt fyrir mikinn eftirspurnarþrýsting í um ári hafi verðhækkanir aðeins verið einkar miklar á undanförnum þremur mánuðum. Þannig hafi íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 12,9% á undanförnum 12 mánuðum og þar af 5,2% aðeins á síðustu þremur mánuðum.

Tólf mánaða hækkun á vísitölu söluverðs er um 11,4% fyrir fjölbýli og 19% fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og þar af 8,4% bara á síðustu þremur mánuðum. Á landsbyggðinni eru hækkanirnar minni þar sem fjölbýli hefur hækkað um 2,7% á síðustu tólf mánuðum en sérbýli um 11%.

Vísitala íbúðaverðs hækkaði í fyrsta skipti í átta mánuði en hækkunin nam 0,6% í maí. Meðalfjárhæð leigu á höfuðborgarsvæðinu nam að meðaltali 195 þúsund krónum í maí en hún fór hæst í 217 þúsund krónur í maí 2018 sé miðað við núverandi verðlag.