Verðhækkanir á fasteignamarkaði hafa almennt verið fremur hógværar samhliða talsverðum vexti í fjölda nýrra íbúða á árinu 2019 að því er fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar, sem tekið hefur við hlutverki Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar. Þó hefur sölutími nýrra íbúða ekki verið lengri frá árinu 2016.

Raunlækkun íbúðaverðs nam um 0,3% milli 2018 og 2019 samkvæmt vísitölu paraðra íbúðaviðskipta á landinu öllu, en sú lækkun skýrist aðallega af um 0,9% raunlækkun vísitölunnar á milli ára á höfuðborgarsvæðinu.

Leiguverð hefur á sama tíma lækkað að raunvirði um 0,4% á höfuðborgarsvæðinu frá desember 2018 til desember 2019 og um 1,9% í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Hinsvegar mælast að meðaltali 7,0% raunhækkanir leiguverðs á öðrum svæðum landsins.

Íbúðum fjölgaði um 3.400 á landinu öllu í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúðum um tæplega 2.300, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins um rúmar 700 íbúðir og um ríflega 400 talsins á öðrum svæðum landsins.

Raunverðslækkun á íbúðum

Ef horft er til meðalverðbreytinga í íbúðaviðskiptum frá árinu 2018 til 2019 samkvæmt vísitölu paraðra íbúðaviðskipta mælist um 2,7% nafnverðshækkun á milli ára yfir landið allt. Það þýðir um 0,3% raunlækkun á milli ára. Sú lækkun skýrist af um 0,9% raunlækkun vísitölunnar á milli ára á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar var um 3,1% raunhækkun á milli ára í vísitölu paraðra íbúðaviðskipta í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og að meðaltali 1,5% raunhækkun yfir önnur svæði landsins.

Meðalsölutími íbúða annarra en nýrra eigna á höfuðborgarsvæðinu hélst mjög stöðugur á árinu 2019. Að meðaltali seldust íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á 87 dögum og mælist meðalsölutíminn í síðasta mánuði ársins, miðað við þriggja mánaða meðaltal, einum degi undir ársmeðaltalinu.

Annað er uppi á teningnum þegar kemur að nýjum íbúðum en sölutími þeirra hefur farið stigvaxandi meira og minna frá árinu 2017 og mælist þriggja mánaða meðaltal í lok árs 2019 í 217 dögum og hefur meðalsölutíminn ekki mælst meiri síðan í byrjun árs 2016.

Um 7,2% viðskipta með íbúðir á höfuðborgarsvæðinu voru seldar yfir ásettu verði í desember 2019 og hefur hlutfallið haldist innan við 10% frá því á haustmánuðum 2018. Í desember seldust 6,5% íbúða yfir ásettu verði í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og annars staðar á landsbyggðinni um 7,9%.

Minnsta hækkun leiguverðs frá 2012

Almennt dró úr árshækkun á leiguverði á árunum 2018 og 2019 eftir kröftugan vöxt árin 2016 og 2017. Það á sérstaklega við í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins þar sem leiguverð mældist 1,9% lægra að raunvirði í desembermánuði síðastliðnum en á sama tíma árið 2018 eftir allt að 24% tólf mánaða raunverðshækkanir um mitt árið 2017.

Leiguverð er þó að meðaltali um 7,4% hærra að raunvirði á þeim svæðum en það var fyrir tveimur árum. Á höfuðborgarsvæðinu, sem telur um 2/3 af leigumarkaðnum, nam árshækkunin um 1,65% að nafnvirði, sem er minnsta 12 mánaða hækkun sem mælst hefur eins langt aftur og tölur hagdeildar HMS ná til, þ.e. aftur til ársins 2012.

Leiguverð hefur því lækkað að raunvirði um 0,4% á höfuðborgarsvæðinu frá desember 2018 til desember 2019 og er það í fyrsta sinn yfir umrætt tímabil sem raunverðslækkun mælist á því markaðssvæði. Hins vegar mælist um 7% raunverðshækkun vísitölu leiguverðs frá desember 2018 til desember 2019 á öðrum svæðum landsins og að meðaltali 3,5% yfir árið 2019 frá fyrra ári.

Lífeyrissjóðir boðið sífellt hagstæðari breytilega verðtryggða vexti

Bilið á milli vaxtakjara banka og lífeyrissjóða hefur þróast með talsvert ólíkum hætti á undanförnum árum eftir því hvort horft er til verðtryggðra eða óverðtryggðra lána.

Ef borin eru saman vaxtakjör lána þar sem hámarksveðhlutfall sem í boði er nemur 70% sést að allt frá árinu 2016 hafa lífeyrissjóðirnir boðið sífellt hagstæðari vaxtakjör en bankarnir á breytilegum verðtryggðum vöxtum.

Hins vegar snýst sá samanburður að nokkru leyti við ef horft er til sambærilegra óverðtryggðra lána, en bankarnir hafa að jafnaði boðið fram hagstæðari kjör en lífeyrissjóðirnir frá því að lífeyrissjóðirnir hófu bjóða slík lán í lok árs 2015, ef einungis er horft til lána með sömu skilyrði um hámarksveðhlutfall.

Mesta fjölgun íbúða á landinu síðan 2008

Íbúðum á landinu öllu fjölgaði um 3.400 í fyrra, samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands um fjölda skráðra íbúða hér á landi. Til samanburðar fjölgaði þeim um ríflega 2.400 árið 2018 og í kringum 1.800 á árinu 2017. Þetta er mesta árlega fjölgun íbúða síðan 2008 en þá fjölgaði íbúðum um 3.700.

Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúðum um tæplega 2.300 í fyrra, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði þeim um rúmlega 700 og um ríflega 400 talsins á öðrum svæðum landsins.