Íslandsbanki og ríkissjóður hafa samið við sjö söluráðgjafa um að sölutryggja hlutafjárútboð bankans sem hófst í morgun. Samanlögð sölutryggingarþóknun, aðrar þóknanir og kostnaður sem ríkissjóður mun greiða í tengslum við útboðið er áætlaður um 1.378 milljónir króna króna, samkvæmt útboðslýsingu.

Kostnaður bankans vegna útboðsins er áætlaður 750 milljónir króna. Það samanstendur af kostnaði sem hlýst af yfirferð og staðfestingu lýsingarinnar, þar á meðal vegna yfirvinnu starfsmanna, kostnaði við töku hlutanna til viðskipta hjá Nasdaq Iceland, þóknunum til ráðgjafa auk annars kostnaðar sem tengist beint töku hlutabréfanna til viðskipta. Ríkissjóður mun greiða allan kostnað sem tengist markaðssetningu og sölu hlutanna sem seldir verða.

Fáist ekki kaupendur í útboðinu verða hlutir seldir til söluráðgjafanna og sérhver þeirra hefur samþykkt að útvega kaupendur í samræmi við neðangreint (hlutfall af sölutryggingu innan sviga) :

  • Citigroup Global Markets Europe AG (36.54%)
  • J.P. Morgan AG (36,54%)
  • Barclays Bank Ireland (13,28%)
  • HSBC Continental Europe (6,64%)
  • Landsbankinn (3,00%)
  • Arion banki (2,00%)
  • Kvika banki (2,00%)

Eftirfarandi söluráðgjafar sölutryggja enga hluti í útboðinu:

  • Íslandsbanki
  • Fossar markaðir
  • Arctica Finance
  • Íslenskir fjárfestar
  • Íslensk verðbréf

Hlutafjárútboð Íslandsbanka hófst klukkan níu í morgun og lýkur þann 15. júní næstkomandi. Gildi, Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og tveir erlendir sjóðir hafa skuldbundið sig til að kaupa 10% af hlutafé bankans .