Verð á hlutabréfum Actavis hefur hækkað talsvert frá því að fyrirtækið Watson Pharmaceuticals Inc. yfirtók félagið. Nafni sameinaðs félags var breytt í Actavis, Inc fyrir skömmu. Þegar yfirtakan var tilkynnt í apríl 2012 kom fram að kaupverðið væri 4,25 milljarðar evra til viðbótar við allt að 5,5 milljónir hluta í hinu sameinaða félagi.

Hlutafé sem fellur í skaut fyrri hluthafa Actavis er bundið við ákveðna árangurstengda skilmála Actavis fyrir rekstur ársins 2012. Ekki hefur komið fram hvort Actavis hafi náð að standast þessi rekstrarskilyrði. Gengi hlutabréfa hins sameinaða félags hefur hækkað úr 60 dollurum á hlut við undirskrift yfirtökunnar í rúmlega 86 dollara. Það er rúmlega 43% hækkun á níu mánuðum. Ef allir 5,5 milljón hlutir falla í skaut fyrri hluthafa Actavis þýðir það verðmætaaukningu upp á um 143 milljónir dollara, sem samsvarar um 18 milljörðum króna. Á meðal fyrri hluthafa var meðal annars Björgólfur Thor Björgólfsson.