Stærsta einstaka opna söluferlið í sögu Íbúðalánasjóðs er yfirstaðið með undirritun kaupsamninga síðustu daga. Um er að ræða 356 íbúðir um land allt sem auglýstar voru í opnu söluferli og fara þær að stóru leyti til leigufélaga sem hyggjast leigja þær út áfram. Heildarsöluverðmæti íbúðanna nemur 6.414 milljónum króna sem er 864 milljónum króna yfir skráðu virði þeirra í bókum sjóðsins.

Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að nettóáhrifin á rekstur Íbúðalánasjóðs í ár nemi í kringum 900 milljónum króna. Þá muni salan auk þess draga umtalsvert úr rekstarkostnaði sjóðsins þar sem umsýsla og viðhald vegna íbúðanna 356 fellur niður.

Fasteignum í eigu Íbúðalánasjóðs fjölgaði mikið eftir hrun fjármálakerfisins og átti sjóðurinn þegar mest var samtals 2.600 eignir. Frá upphafi árs 2008 hefur Íbúðalánasjóður eignast um 4.350 eignir en á sama tíma selt 3.159 eignir fyrir um 47,8 milljarða króna. Sjóðurinn á nú um 900 íbúðir og stefnir á að selja meirihluta þeirra fyrir lok ársins.

Íbúðirnar verið í eigu sjóðsins í allt að átta ár

Fjórir aðilar kaupa íbúðirnar í samtals 11 eignasöfnum. Í öllum tilfellum erum að ræða fyrirtæki. Aðallega eru þetta íbúðir sem lent höfðu í fangi Íbúðalánasjóðs vegna efnahagshrunsins, þær elstu hafa verið í eigu sjóðsins í um átta ár. Um er að ræða 106 íbúðir á Austurlandi, 21 íbúð á Norðurlandi, 6 íbúðir á Vestfjörðum, 27 íbúðir á Vesturlandi, 108 íbúðir á Suðurnesjum og 88 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirtalin félög hafa skrifað undir kaupasamning:

Leigufélagið Heimavellir  slhf        139 eignir            1.829 m.kr
BK eignir hf                                         153 eignir            3.740 m.kr
Kurr ehf                                               31 eignir               369  m.kr.
Leigufélagið Stefnir slhf                 33 eignir               476  m.kr