*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Fólk 3. október 2019 12:56

Sölvi hættir hjá Gamma

Sölvi Blöndal, efnahagsráðgjafi Gamma, hefur sagt starfi sínu lausu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðingurinn Sölvi Blöndal, sem starfar sem efnahagsráðgjafi Gamma, hefur sagt starfi sínu lausu. Þetta staðfestir hann í samtali við Vísi og segir hann jafnframt að hann hafi sagt starfi sínu lausu í haust og sé að vinna sinn uppsagnarfrest þessa dagana.

Sölvi hefur starfað hjá Gamma síðan árið 2011. „Það er komið að tímamótum hjá mér. Þetta hefur verið skemmtilegur tími en nú er tímabært að breyta til,“ hefur Vísir eftir Sölva.

Sölvi segir að starfslok sín tengist ekki kaupum Kviku banka á Gamma. Hann hafi unnið vel með Kviku og starfslokin séu framkvæmd í fullri sátt við alla.

Loks segir Sölvi að tíminn muni leiða í ljós hvað hann muni taka sér fyrir hendur eftir að hann lýkur störfum. Hann mun þó ekki sitja auðum höndum því nýlega tók hann við starfi aðjúnkts hjá hagfræðideild Háskóla Íslands, þar sem hann kennir eitt námskeið. Þar að auki er Sölvi einn af eigendum tónlistarútgáfunnar Öldu Music. 

Stikkorð: Gamma Sölvi Blöndal