„Ég reyni yfirleitt að vera mjög slakur í kringum jólin, svo mjög að ég kaupi yfirleitt meirihlutann af gjöfunum á þorláksmessu. Haustið 2005 var fremur sérstakt. Þá fór í loftið fréttastöðin NFS með tilheyrandi vinnugleði,“ segir Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður.

„Ég sá fram á hið gamalgróna plan að kaupa gjafirnar á Þorláksmessu. En þegar til kom var ég svo úrvinda eftir skötuna að ég ákvað að taka örlitla kríu eftir matinn. Ekki vildi betur til en svo að ég rankaði ekki við mér fyrr en hálfellefu og bara ein gjöf komin í hús. Ég rauk í bæinn og náði einni til viðbótar fyrir lokun. Ljóst var að það yrði ekki lengur umflúið að ég tæki ,,aðfangadagur-fyrirhádegi- kallinn“ á þetta. Nokkuð sem ég hafði ekki ætlað að afreka, en ákvað að bíta í eplið súra."

Ekki tók betra við þegar Sölvi vaknaði á aðfangadagsmorgun: „Þegar ég álpaðist loks af stað upp úr 10.30 daginn eftir var ég ekki kominn langt er ég heyrði óþægilegt hljóð vinstra megin í bílnum. Það var hvellsprungið á dekkinu. Bölvandi og ragnandi á afmælisdegi frelsarans reyndi ég að laga það sem lagað yrði án mikils árangurs. Þrátt fyrir sérlega karlmannlega eiginleika í ,,inn-út“ kaupum náði ég ekki að klára gjafirnar í svitakasti í Kringlunni. Það fór svo að lokum að tveir ættingjar urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá jólagjafir úr 10-11 þetta árið. Ég held þeim hafi ekki orðið meint af.“

Nánar er fjallað um allt sem tengist hátíðarklúðri í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.