Sómi ehf., sem útbýr samlokur og ýmsa aðra tilbúna matvöru, hagnaðist um tæplega 199 milljónir króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Ársreikningurinn nær einnig til Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar ehf., sem er dótturfélag Sóma. Hagnaður félagsins jókst um 22 milljónir króna á árinu 2017 frá árinu þar á undan. Velta nam 2.868 milljónum króna og jókst um rúmlega 185 milljónir króna frá fyrra ári. Á síðasta ári störfuðu 117 starfsmenn hjá Sóma samstæðunni en árið áður voru starfsmenn 106 talsins. Laun og launatengd gjöld námu 815 milljónum króna og hækkuðu um 109 milljónir króna frá fyrra ári. Hagnaður af rekstri (EBIT) nam 272 milljónum króna og hækkaði um 15 milljónir milli ára.

Eignir félagsins námu 1.124 milljónum króna í lok árs og þar af nam handbært fé 197 milljónum króna og hækkaði um tæplega 60 milljónir milli ára. Skuldir í lok árs 2017 námu 680 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 39%.

Notið góðs af ferðamannastraumnum

Arnþór Pálsson, sem á tæpan helmingshlut í Sóma og situr í stjórn félagsins, segir að það góðæri sem nú ríki á Íslandi hafi gagnast fyrirtækinu vel.

„Við erum að njóta góðs af þeim mikla straumi ferðamanna sem kemur hingað til lands. Ferðamenn hafa verið duglegir að kaupa vörurnar okkar og það hefur haft jákvæð áhrif á afkomu félagsins. Auk þess starfa 85 manns hjá fyrirtækinu sem standa sig mjög vel í starfi og starfsfólkið á í raun heiðurinn af því hversu vel gengur.“

Hörð samkeppni

Að sögn Arnþórs hefur fjöldi skyndibitastaða aukist verulega á síðustu árum og fólk er í auknum mæli farið að velja tilbúnar lausnir þegar kemur að matarvali.

„Aðalsamkeppnisaðilar okkar eru þessir skyndibitastaðir, þar sem að þeir bjóða, rétt eins og við, upp á fljótlegar og tilbúnar lausnir. Auk þess hafa komið nýir aðilar inn á markaðinn sem bjóða upp á svipaðar vörur og við bjóðum upp á. Samkeppnin á markaðnum er því nokkuð hörð.“

Rólegur vöxtur

„Við höfum í gegnum tíðina vaxið rólega og aldrei verið í neinum ofurvexti. Á sínum tíma höfðu fáir trú á tilbúnum samlokum og töldu að góð sala þeirra væri bóla sem myndi að lokum springa. Það er því skemmtilegt að sjá hvað tilbúnar samlokur og aðrir tilbúnir réttir hafa sterka stöðu á markaðnum í dag“ segir Arnþór.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um dómsmál á hendur ríkinu vegna oftekinna útboðsgjalda
  • Ítarleg umfjöllun um fjárhagsstöðu WOW air
  • Framkvæmdastjóri SA ræðir um yfirvofandi kjaraviðræður
  • Umfjöllun um skýrslu Viðskiptaráðs sem kemur út á morgun
  • Ítarlegt viðtal við Eggert Þór Kristófersson, forstjóra N1
  • Sprotafyrirtæki hefur þróað upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun
  • Nýr forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Iceland Travel ræðir um nýja starfið og lærdómsríka dvöl sína erlendis
  • Óðinn skrifar um VR og lóðaúthlutanir sveitarfélaga
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Pírata