Síðari hluta september 2008 sömdu Glitnir og Landsbankinn um kaup á bréfum hvors annars, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ívar Guðjónsson, starfsmaður Landsbankans, staðfesti í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis að hann hefði fengið fyrirmæli frá Sigurjón Árnasyni bankastjóra, þess efnis að það hefði verið samið um viðskipti við Glitni og Ívar ætti að framkvæma þær aðgerðir.

Viðskipti á sama tíma

Deild eigin viðskipta hjá Glitni átti fjórum sinnum stór viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum, dagana 17. -29. september, fyrir um 3,6 milljarða króna. Samtals var þetta rúmlega 1,5% af heildarhlutafé bankans.  Á Sama tímabili keypti Landsbankinn bréf í Glitni fyrir 3,6 milljarða króna í fjórum viðskiptum og námu kaupin um 3,1% hlut í bankanum. “Í ljósi þess að nánast sömu upphæð og sama tímabil er að ræða vaknar sú spurning hvort Glitnir og Landsbankinn hafi gert með sér e.k. samkomulag um kaup á hlutabréfum hvor í öðrum upp á rúma 3, 6 milljarða. Ljóst er að báðir bankarnir hafa verið farnir að nálgast flöggunarskyldu á eignastöðu sinni í eigin hlutabréfum (sem gerist við 5% eign veltubókar) og því hafa þeir báðir haft hag af því að losa út bréf af veltubók eigin viðskipta.”

Staðfesta hvor með sínum hætti

Jóhannes Baldursson, yfirmaður markaðsviðskipta hjá Glitni og núverandi framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, segir að frumkvæðið að þessum viðskiptum hafi komið frá Landsbankanum. “Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis segir hann þvert á móti að viðskipti hafi alfarið verið að frumkvæði Landsbankans og hann sjálfur hefði samið við Landsbankann eftir að Ívar Guðjónsson hafði samband við hann.” Jóhannes og Ívar staðfesta því báðir, hvor með sínum hætti, að samið hafi verið um viðskiptin með bréfum í bönkunum. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur tilkynnt sérstökum saksóknara að rannsóknar sé þörf á veltubókarviðskiptum bankanna, og þá með tilliti til þess hvort þau hafi falið í sér markaðsmisnotkun.