Skiptum á þrotabúi fræðsluleikjafyrirtækisins 3-plus lýkur á næstu dögum. Fyrirtækið hannaði og þróaði leiktæki sem fólst í því að breyta DVD-spilara í leiktæki ásamt gagnvirkjum fræðsluleikjum fyrir börn. Fyrir tíu árum samdi fyrirtækið við bandaríska afþreyingarisann Disney um útgáfu á leikjum byggðum á teiknimyndapersónum úr safni Walt Disney. Þar á meðal voru Disney Princess, Bangsímon og úr teiknimyndinni The Lion King. Þegar samið var við Disney hafði fyrirtækið framleitt 14 leiki byggða á þekktum persónum á átta tungumálum.

Fyrirtækið varð hins vegar gjaldþrota í maí árið 2007 og mun enginn samningur nú í gildi á milli fyrirtækisins og Disney.

Skiptastjóri þrotabús 3-plus hefur boðað lánardrottna á skiptafund 11. júlí næstkomandi, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu. Lýstar kröfur í þrotabúið nema rétt rúmum 200 milljónum króna. Forgangskröfur hljóða upp á tæpar tvær milljónir króna og fást þær greiddar að fullu. Þar er um að ræða kröfur frá Ábyrgðasjóði launa að nær öllu leyti, samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra. Almennar kröfur hljóða upp á rúma 201 milljón og eru til eignir upp á 12 milljónir króna í þær. Það jafngildir því að kröfuhafar fái um 6% upp í kröfur sínar úr þrotabúi 3-plus.