Robert Tchenguiz, fasteignajöfurinn sem er að vinna að tilboði í bresku verslunarkeðjuna Somerfield með Baugi, og meðeigendur hans hafa ákveðið selja 180 Shell bensínstöðvar í Bretlandi fyrir um 400 milljónir punda (47 milljarðar íslenskra króna), segir breska dagblaðið The Times.

Írönsku bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz keyptu bensínstöðvarnar með fasteignafjárfestunum Ian og Richard Livingstone fyrir um fimm árum en líklegt þykir að þeir slíti samstarfinu. Livingstone bræður eru keppinautar Robert Tchenguiz og Baugs um Somerfield. Japanski bankinn Nomura er í samstarfi við Livingstone bræður.

Somerfield er fimmta stærsta matvöruverslunarkeðjan í Bretlandi. Tilboðin í keðjuna hljóða upp á rúmlega milljarð punda (117 milljarðar íslenskra króna). Fjárfestingasjóðurinn Apax og breski bankinn Barclays standa að tilboðinu í Somerfield ásamt Baugi og Robert Tchenguiz. Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka í London leiddi hópinn saman. Bresku bankarnir Bank of Scotland, sem Baugur hefur unnið náið með í gegnum tíðina, og Royal Bank of Scotland, hafa verið að vinna að fjármögnun á tilboði Baugs hópsins.