Nýráðinn verkefnastjóri á samkeppnishæfnissviði Samtaka atvinnulífsins, Unnur Elfa Hallsteinsdóttir, er nýflutt heim eftir að hafa starfað hjá sendiráði Íslands í Brussel og hjá EFTAskrifstofunni.

„Ég er mjög spennt fyrir starfinu sem felur meðal annars í sér almenna hagsmunagæslu fyrir atvinnulífið og að stuðla að samkeppnishæfu rekstrarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki á fjölbreytta vegu,“ segir Unnur.

„Ég var svo heppin að fá að fara í starfsnám hjá lögfræðiþjónustu EFTA-skrifstofunnar í Brussel. Síðan starfaði ég þar sem sérfræðingur í sendiráði Íslands. Það var mjög gaman að kynnast því hvernig ESB og EES virka frá fyrstu hendi. Í náminu hafði ég lagt mesta áherslu á Evrópurétt en einnig alþjóðalögfræði, sem ég fékk dýrmætt tækifæri til að læra í skiptinámi í Sidney í Ástralíu. Það er fallegasta borg sem ég hef komið til.“

Unnur segir það mikinn kost að hafa búið í Brussel hve ódýrt og auðvelt sé að ferðast út um allt í kring sem hún og kærasti hennar, Jóhann Skúli Jónsson, lögfræðingur hjá Einkaleyfastofunni, gerðu mikið af í frítíma sínum þarna úti.

„Belgía býður upp á virkilega góðan bjór og gott súkkulaði, og Brussel er mjög lifandi og skemmtileg borg með miklu mannlífi,“ segir Unnur sem meðal annars nýtti tækifærið og skrapp á EM í Frakklandi.

Unnur og Jóhann eru nýbakaðir foreldrar með 8 mánaða gamlan son, Eystein Skúla, sem tekur mestan tíma hennar utan vinnu. Unnur hefur unun af því að elda mat og eyða tíma með fjölskyldu og vinum.

„Ég æfði á fiðlu í 10 ár og svo hef ég verið í kórum frá því að ég var barn. Það er gott að fá útrás með því að syngja, þetta er svolítið eins og hugleiðsla fyrir mig. Núna er ég nýkomin í nýjan kór, Hljómfélagið, en ég var alltaf í kirkjukór sem barn, svo í kór MR og Háskólakórnum sem buðu oft upp á að komast í skemmtileg kórferðalög.“