Söngvari rokksveitarinnar Iron Maiden, Bruce Dickinsson, er meðal þeirra sem vinna að því að koma viðskiptavinum XL Leisure Group heim. Um það bil 85.000 manns urðu strandaglópar eftir gjaldþrot ferðaskrifstofunnar, en flugvélar XL voru kyrrsettar á föstudagsmorgun. Frá þessu er greint á vefsíðu tímaritsins NME.

Dickinson starfar sem flugmaður fyrir flugfélagið Astraeus, sem er í eigu Northern Travel Holding. Astraeus er meðal þeirra flugfélaga sem taka þátt í björgunaraðgerðum á viðskiptavinum XL.

Í gær flaug Dickinson með 221 farþega til Bretlands frá Sharm-el-Sheikh í Egyptalandi. Kvöld sama dags hélt Dickinson síðan til grísku eyjarinnar Kos í sömu erindagjörðum.