Heimskonan Sonja de Zorrilla virðist hafa verið flestum sem hún hitt eftirminnileg. Meðal þeirra sem skrifuðu minningargreinar um hana voru Agnes Bragadóttir blaðamaður, Jón Hákon Magnússon almannatengill, Ástríður H. Andersen og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti.

Í ævisögu sinni segir Björgólfur Thor Björgólfsson frá fjölskylduvininum Sonju de Zorrilla sem opnað hafi fyrir honum dyr heimsborgaralífsins. Björgólfur steig sem ungur drengur ein sín fyrstu skref í viðskiptum með sölu á myndasögum sem Sonja sendi honum frá Bandaríkjunum. Hún hafi svo síðar hjálpað honum að komast inn í nám í New York University. „Kannski var það hennar líf sem ég horfði til og þráði,“ segir Björgólfur í ævisögunni.

Sjá einnig: Sjóður Sonju de Zorrilla fundinn

Viðskiptablaðið hefur að undanförnu fjallað um auð Sonju og styrktarsjóð sem stofnaður var eftir andlát hennar árið 2002 en hún ánafnaði eigur sínar sjóðnum til að styrkja „heilsu og menntun barna“ á Íslandi og í Bandaríkjunum. Lítið hefur fengist uppgefið um fjármál sjóðsins fram að úttekt Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

Sonja sem fæddist árið 1916 ólst upp í Reykjavík en flutti ung af landi brott og dvaldi meðal annars í Danmörku, Þýskalandi, París, London og á Spáni. Hún flúði Evrópu þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og sigldi yfir hafið til New York, þar sem hún bjó stærstan hluta ævi sinnar. Hún átti í ástarsambandi við Aristotle Onassis, sem auðgaðist meðal annars á skipasmíðum og giftist síðar Jackie Kennedy, ekkju John F. Kennedy Bandaríkjaforseta.

Sjá einnig: Styrkir Sonju sjóðsins frá upphafi

John L. Loeb eldri, forstjóri Kauphallarinnar í New York, var hins vegar stóra „ástin í lífi“ Sonju. Sonja gekk þó að eiga argentínska ólympíuverðlaunahafann Alberto de Zorilla árið 1948 og bjuggu þau lengi vel í stórri íbúð við 580 Park Avenue sem Loeb fyrir um kaup á. John J. Ferguson, lögmaður Sonju og annar sjóðstjóra Sonja Foundation, segir að Loeb hafi stofnað þrjá sjóði (e. Trusts) fyrir Sonju þegar hún var á sextugsaldri en verðmætum sjóðanna hafi verið skilað til erfingja Loeb við andlát Sonju.

Sjá einnig: „Aðalverðmætin“ komu frá ástmanni Sonju

Síðustu æviárin var Sonja búsett á Íslandi en hún bjó í íbúð við Eiðistorg og gerði upp sumarbústað á Þingvöllum, sem Vigdís Finnbogadóttir keypti síðar af henni. Eftir að hafa selt sumarbústaðinn byggði Sonja sér 320 fermetra einbýlishús á jörð frænda síns, Guðmundar A. Birgissonar, á Núpum í Ölfusi sem Guðmundur keypti af minningarsjóðnum Sonja Foundation eftir andlát hennar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .